9.6.2007 | 13:57
Egill Helgason á blog.is
Þrátt fyrir að hafa ekki uppfært síðuna mína nokkurn tíma sé ég að heimsóknum á hana fer fjölgandi og án efa vegna nafnaruglings, því nú hefur hinn stórfrægi nafni minn Egill Helgason Blaðamaður byrjað að blogga hér á blog.is. Ég er þó nokkuð viss um að Egill Blaðamaður Helgason hefur eitthvert millinafn, þó reyndar sé það ekki Blaðamaður. Það væri ágætt ef hann væri til í að nota það til aðgreiningar frá mér. Í gegnum tíðina hef ég bæði haft gaman af og ekki af nafnaruglingi við Egil Helgason Blaðamann. Það byrjaði fyrir tíu til fimmtán árum síðan með símhringingu frá Berki nokkrum Gunnarssyni. Við Börkur höfðum verið saman í árgangi í Versló og ekki meira en rétt málkunnugir og liðin nokkur ár frá því við útskrifuðumst. Ég var síst að skilja hvað Börkur vildi mér, en hann var hinn hressasti og kjaftaði í honum hver tuska og sagði mér óstöðvandi frá ferð sinni sem blaðamanns til Júgóslavíu, en ég braut heilann um hvað í ósköpunum hann vildi mér. En sögunum lauk og Börkur spurði mig um greinina mína í Helgarpóstinum. Ég varð undrandi og svaraði honum að hann væri nú varla að tala við réttan Egil Helgason. Honum varð mikið um og kvaddi 1-2 og 3, án þess svo mikið að fá útskýringu á af hverju ég kannaðist við hann. Nokkru síðar hringdi maður sem var mikið niðri fyrir og spurði hvort ég væri Egill Helgason. Ég játti því. Sagði hann þá að hann væri alls ekki sáttur við mig. Mér krossbrá hvað hafði ég nú gert ! Hann var alls ekki sáttur við kvikmyndagagnrýni mína í Helgarpóstinum. Mér létti stórum og útskýrði fyrir honum að hann væri ekki að tala við réttan Egil Helgason. Við það æstist hann enn meir og sagði að ég skyldi sko ekki halda að ég kæmist svona frá þessu, hann hefði nefninlega fengið númerið mitt uppgefið hjá Helgarpóstinum. Áttum við lengra samtal þar sem ég marg reyndi að útskýra málið en hann var nær óður yfir hvernig ég átti að hafa farið gríðarlega ósanngjörnum orðum um einhvern uppáhalds leikara hans. Á endanum var ég búinn að fá nóg og sagði við manninn að ég hefði bara verið í vondu skapi þegar ég fór á myndina og hefði bara aldrei getað þolað viðkomandi leikara og hann yrði bara að hafa það. Fleiri símtöl fékk ég næstu árin, yfirleitt frá ágætu fólki, en líka alveg verulega skrítnu. Sem betur fer hefur dregið mikið úr þessum nafnaruglingi hin síðari ár þó af og til fái ég enn svona símtöl. Þó flest þessara símtala hafi verið tíðindalítil eða hálf óskemmtileg fékk ég fyrir nokkrum árum mjög skemmtilegt símtal frá Ólafi F Magnússyni, sem vert er að minnast á. Síminn hringdi og ég svaraði bara halló og Ólafur spyr hvort ég sé Egill Helgason, ég játti því. Hann segir þá ,,ja það er bara ekkert mál að ná í þig, ,,ha nei, af hverju ætti það að vera segi ég undrandi, ,,nei maður myndi halda að jafn frægur maður og þú hefði einhvern buffer, segir Ólafur og kynnir sig. Ég svara þá ,,Nei heyrðu Ólafur veistu þú ert ekki að tala við réttan Egil Helgason. Það kom nokkuð á Ólaf sem var alveg sannfærður um að ég væri Egill Blaðamaður Helgason að stríða honum og þurfti ég að beita nokkrum sannfæringarkrafti til að fá hann til að trúa því að ég væri ekki sá sem hann hélt mig vera. Eftir nokkurn tíma sannfærðist hann þó og hlógum við báðir að þessari spaugilegu uppákomu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.